We carry on.


Vistaskipti

Ég hef notið góðs af gestrisni foreldra minna í nokkra daga, en þegar menn hafa flogið úr hreiðrinu einu sinni, verður það aldrei nema viðkomustaður í framtíðinni. Því fór ég á ról og skoðaði leigumarkaðinn af nokkurri kostgæfni, niðurstaðan var lítil íbúð í Hamrahlíð, og eftir smá þreifingar og þref  fékkst hún á auðvitað allt of háa upphæð. Í gærkvöldi hlunkuðum við Hekla okkur svo inn í slottið með öllum þeim farangri sem því fylgir. Sigrún Ósk og Jens Pétur sýndu sérlegan drengskap og hetjulund í flutningunum og vil ég þakka þeim það kærlega. Þegar við Hekla stóðum svo ein eftir tók alvaran við. Seinasti íbúi í íbúðinni hefur nefnilega ekki verið mjög þrifin, eiginlega ekkert þrifin. Því tók við hjá okkur afskaplega langur einkaþáttur af hinu feikivinsæla sjónvarpsefni "Allt í drasli".  Það verður þó að segjast eins og er að okkur finnst skemmtilegra að horfa bara á hann í sjónvarpinu. Á tímabili var ég meira að segja farin að sjá Heiðar snyrtir í hyllingum í anddyrinu hjá mér. En ekki kom þó sá ágæti maður heldur frekar ósennilegur staðgengill. Um miðjan dag birtist nefnilega tveggja metra heljarmenni fyrir framan útihurðina hjá mér, kraftakall mikill, járnsmiður og sjálfmenntaður blöðruprentari, vopnaður sturtuhreinsi og ljósaperum. Við Hekla hefðum ekki orðið kátari þó að okkur hefði verið tilkynnt að við værum tilnefnd til nóbelsverðlaunanna fyrir framlag okkar til friðarmála. Arkaði hann beint inn á baðherbergi og tók þar glímu við baðkarið, og alla púka þess. Það var löng og strembinn rimma , baðkarið varðist með kjafti og klóm, en ekki lét Jens Pétur það á sig fá, heldur beitti glæsilegum hælkrók á kvikindið. Hekla sýndi snilldartakta í skúringum, uppvaski og innröðun í fataskápa auk þess sem barnið raðaði skrautmunum og nytjahlutum um heimilið af slíkri smekkvísi að Vala Matt hefði dauðöfundað hana. En allt endaði þetta vel, ruslaskrímslið hefur verið tamið að mestu og sett í hlekki. Við tekur hið daglega líf á nýjum stað og með nýjum brag.

Ég vil þakka ykkur öllum sem hafið stutt mig, með orðum, gerðum eða þögn. Ég er afskaplega heppinn að eiga ykkur öll að. 


Er til nokkuð fallegra

hb_bb.jpg

Er nokkuð yndislegra en að eiga svona fallegar og gáfaðar dætur, þær eru það besta sem lífið getur boðið upp á og eru föður sínum óendanleg uppspretta af ást og þakklæti.


Smíði 101

Í mörg ár hef ég verslað megnið af mínum húsbúnaði af hinu virta innanstokksmunafyrirtæki IKEA. Þetta frábæra fyrirtæki hefur staðið sig með miklum ágætum í að pranga inn á mig ótrúlegustu hlutum allt frá inniskóm upp í borðstofusett. Reyndar eru þetta allt ágætisvörur, sumar meira að segja mjög góðar en það er eitthvað sterilt við þetta allt samt. Eftir að ég hafði virt fyrir mér stofuna mína og komist að því að 87,6% af húsgögnunum í henni ættu systkini á 2 skrilljón heimilum víðsvegar um heiminn sá ég að tími væri kominn til aðgerða. Ég gerði nefnilega ákaflega merkilegar uppgötvanir um daginn.

Nr 1. Ég er smiður.

Nr 2. Ég kann að smíða.

Nr 3. Ég hef smíðað haugana af húsgögnum gegnum tíðina, en ekkert heim til mín.

Nr 4.  Mér finnst gaman að teikna hluti

Nr 5. Mér finnst gaman að smíða hluti.

 Eftir að þessar uppgötvanir höfðu svo gerjast í hausnum á mér í umtalsverðan tíma, kviknaði lítið kertaljós í huga mér ( samt bara svona lítið afmæliskerti).  Ég lá afslappaður á stofugólfinu að reyna að telja hrukkurnar í hraunuðu loftinu, þegar sú hugsun laumaðist að mér að ég gæti bara smíðað mér húsgögn sjálfur. Ekki skorti mig aðstöðuna og það er bara hollt að láta reyna á kunnáttuna annað slagið, og smíða eitthvað annað en steingeldar eldhúsinnréttingar. Ég rauk því í tölvuna, teiknaði mér borð, fór og náði mér í efni og skrattaðist svo við smíðina nokkur kvöld.Stórsmiðjan og gúrmei kokkurinn Anna Margrét Kristjánsdóttir smíðaði sér líka borð, en þau eru talsvert öðruvísi og ansi hreint flott.  En ég er sáttur við borðin mín, nú er bara að halda áfram að föndra.

 p4090005.jpg

 

 


Ussssssss, ég er að reyna að sofa


Fjölgun hefur átt sér stað

Í nokkur ár hef ég nú unnið með eðalsmiðjunni Ingu Laufey Bjargmundsdóttir. Okkur líkaði strax vel hvort við annað, og fundum við strax fyrir sterkum tengslum okkar á milli. Samband okkar Ingu hefur svo þróast á afskaplega intresant hátt. Mér var nefnilega farið að finnast hún vera systir mín. Eitt leiddi af öðru og á páskadag síðastliðinn manaði ég mig síðan upp í að biðja hana formlega um að tengjast mér systkinaböndum. Og játti hún þessu bónorði mínu. Ég er yfir mig glaður að tilkinna það að klukkan þrjú í dag skrifuðum við Inga undir samning þess efnis að hér eftir teldum við okkur vera systkini. Vottar af þessum samruna voru svo Anna Margrét og Heiða Ósk.p3250035_479690.jpgsamkomulag_479695.jpg

Fjölgun í fjölskyldunni

Það eru undarlegir hlutir á seyði í Blikahólunum, jafnvel gæti fjölgað um einn einstakling í fjölskyldunni á næstunni. En það skýrist betur á þriðjudaginn.

Páskafrí

Það er undarlegt fyrir vinnudýr að fara í frí. Maður fær undarlegustu hugdettur og kemst að löngu gleymdum hlutum. Til dæmis hef ég velt því fyrir mér hvort það færi sjónvarpinu ekki betur að standa á hlið, hvort að ég ætti að mála hringorma á ísskápinn og hvort ég ætti að búa til gestabók, sem væri með myndum af höndunum á öllum sem heimsækja mig. (gestabókin er reyndar nokkuð sniðug hugmynd). Ég hef komist að því að, sófinn er þægilegur, sjónvarpsdagskráin leiðinleg, internetið stórt og að páskaeggjaratleikir eru skemmtilegir. Hekla Bjarnadóttir faldi nefnilega páskaeggið mitt og lét mig síðan skrölta um alla íbúðina vitstola af sykurskorti í leit af vísbendingum um hvar það væri. Ef það hefði ekki verið fyrir feikimikla reynslu af ratleikjum síðan ég var lítill skátadrengur, lægi ég nú froðufellandi af bræði á gólfinu, seinasta vísbendingin var nefnilega svínslega erfið.

" Í þessum var ég lítil, fela þeir sig rauðir"

 Þessi vísbending kostaði töluvert klór í haus. En að lokum hafðist þetta, enda mundi ég orð Baden Powells um að skáti væri þrautseigur og passaði því þrýstinginn. Barn og unglingur trítluðu léttstígar eftir vísbendingum Sigrúnar og fundu eggin sín á mettíma, enda afar vel gefnar báðar tvær og sólgnar í súkkulaði. 

 Af þyngd minni eru síðan voðvænlegar fréttir, því að hún virðist hafa beintengt sig við vísitölu neysluverðs. En ég læt það lítið á mig fá og held ótrauður áfram í sukkinu. Á eftir ætla ég að sökkva tönnunum í fjórða páskalambið sem slátrað er mér til heiðurs þessa páskana, og ég er jafnvel að hugsa um að smygla mér í það fimmta á morgunn.  Einnig ætla ég að misnota veru mína hér á opinberum miðli og auglýsa eftir sjötta lambinu, þá hangikjeti.  Helst af tveggja vetra sauð.

 Annars vil ég óska öllum gleðilegra páska, og þakka kærlega fyrir mig.


Margt að gerast, ekkert að frétta

Mér þarf ekkert að leiðast þessa dagana. Það er auðvitað brjálað að gera í vinnunni eins og seinustu 15 ár. Listagyðjan fær svo útrás í húsgagnahönnun, en við Anna Margrét höfum bundist hönnunarböndum og skiptumst nú á teikningum og bætum og breytum eftir eigin höfði. Ætlunin er að stórsmiðjan Inga Laufey Bjargmundsdóttir bætist svo í kompaníið þegar hennar tölvumálum hefur verið reddað. Það heillar mig alveg gríðarlega að aðrir fikti í teikningunum mínum, þannig að þegar  þær skila sér aftur stendur aðeins eftir grunnhugmyndin, ef hún verður þá eftir. Fræðimaðurinn fær svo útrás í ævisöguritun, en ég er að rita niður ævisögu stórvinar míns og sáluhjálpara Róberts, gamla lúllibangsans míns. Hugmyndin er að ég skrifi fyrsta bindi sem kemur til með að ná yfir fyrstu 16 æviár hans og að dætur mínar tvær riti næsta bindi og síðan koll af kolli. Þunglynda kaffihúsaskáldið fær síðan sína útrás í myndaröð af mér. Ég hef nefnilega haft upp á leiðum alnafna minna víðsvegar um landið og ætla ég að fá fyrrnefndar dætur mínar til að mynda faðir sinn dauðann á þeim. Fyrst þarf ég að versla mér jarðafarajakkaföt, seinasta myndin í seríunni verður svo af mér í kistunni. Það er bara að passa sig að fitna ekki svo þau passi.

Ég get vel sætt mig við þetta

Your results:
You are Spider-Man
Spider-Man 75%
Batman 55%
Superman 50%
Supergirl 15%
The Flash 15%
Robin 12%
Wonder Woman 5%
Green Lantern 0%
Catwoman 0%
Hulk 0%
Iron Man 0%
You are intelligent, witty,
a bit geeky and have great
power and responsibility.
Click here to take the Superhero Personality Test

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband