Vistaskipti

Ég hef notið góðs af gestrisni foreldra minna í nokkra daga, en þegar menn hafa flogið úr hreiðrinu einu sinni, verður það aldrei nema viðkomustaður í framtíðinni. Því fór ég á ról og skoðaði leigumarkaðinn af nokkurri kostgæfni, niðurstaðan var lítil íbúð í Hamrahlíð, og eftir smá þreifingar og þref  fékkst hún á auðvitað allt of háa upphæð. Í gærkvöldi hlunkuðum við Hekla okkur svo inn í slottið með öllum þeim farangri sem því fylgir. Sigrún Ósk og Jens Pétur sýndu sérlegan drengskap og hetjulund í flutningunum og vil ég þakka þeim það kærlega. Þegar við Hekla stóðum svo ein eftir tók alvaran við. Seinasti íbúi í íbúðinni hefur nefnilega ekki verið mjög þrifin, eiginlega ekkert þrifin. Því tók við hjá okkur afskaplega langur einkaþáttur af hinu feikivinsæla sjónvarpsefni "Allt í drasli".  Það verður þó að segjast eins og er að okkur finnst skemmtilegra að horfa bara á hann í sjónvarpinu. Á tímabili var ég meira að segja farin að sjá Heiðar snyrtir í hyllingum í anddyrinu hjá mér. En ekki kom þó sá ágæti maður heldur frekar ósennilegur staðgengill. Um miðjan dag birtist nefnilega tveggja metra heljarmenni fyrir framan útihurðina hjá mér, kraftakall mikill, járnsmiður og sjálfmenntaður blöðruprentari, vopnaður sturtuhreinsi og ljósaperum. Við Hekla hefðum ekki orðið kátari þó að okkur hefði verið tilkynnt að við værum tilnefnd til nóbelsverðlaunanna fyrir framlag okkar til friðarmála. Arkaði hann beint inn á baðherbergi og tók þar glímu við baðkarið, og alla púka þess. Það var löng og strembinn rimma , baðkarið varðist með kjafti og klóm, en ekki lét Jens Pétur það á sig fá, heldur beitti glæsilegum hælkrók á kvikindið. Hekla sýndi snilldartakta í skúringum, uppvaski og innröðun í fataskápa auk þess sem barnið raðaði skrautmunum og nytjahlutum um heimilið af slíkri smekkvísi að Vala Matt hefði dauðöfundað hana. En allt endaði þetta vel, ruslaskrímslið hefur verið tamið að mestu og sett í hlekki. Við tekur hið daglega líf á nýjum stað og með nýjum brag.

Ég vil þakka ykkur öllum sem hafið stutt mig, með orðum, gerðum eða þögn. Ég er afskaplega heppinn að eiga ykkur öll að. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með íbúðina, vonandi verður mér boðið í kaffi fljótlega til að skoða slotið :)

Katrín Sylvía (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 16:25

2 identicon

Til hamingju með höllina! Ég stefni á að kíkja á pleisið og fá kaffi hjá þér fljótlega.

Harpa (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 09:13

3 Smámynd: Bjarni Magnússon

Takk takk, það er alltaf rjúkandi á könnunni, og ég gæti jafnvel skellt í pönnukökur.

Bjarni Magnússon, 6.5.2008 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband