Kannski er ég bara að bíða eftir að það vaxi á mig vængir.

Eins og áður hefur komið fram hef ég aldrei tekið bílpróf. Þetta þykir mörgum hið undarlegasta mál og hef ég því allt frá 17 ára aldri þurft að berjast með kjafti og klóm til að verja þessa þessa mjög svo ómeðvituðu ákvörðun mína. Á tímabili var ég jafnvel farinn að hugsa mikið um að breyta þessu í meðvitaða ákvörðun. Ég gæti borið því við að börnin á Indlandi þyrftu vinnuna við að sauma skó eða að ég væri þess fullviss að hjólið væri slæm uppfinning, mitt form væri kassi. En svona röksemdafærslur myndu sennilegast koma mér í tóm vandræði og að segjast vera umhverfisverndarsinni eru allt of leiðinleg rök til að ég nenni að beita þeim. Ég hef því upphugsað fullkomlega skothelt svar við spurningum sem ég fæ um þetta. Mitt svar er "af því bara". Það tók mig mörg ár að komast að þessu svari sem ég hef þó kunnað allt mitt líf. Einfalt, gott og algjörlega rakalaust svar sem engin rök duga á. Það eru nefnilega ekki til nein góð rökstudd svör við þessari spurningu, enda væru öll rök af minni hálfu hreinasta lygi.
Að mæta í vinnu á nýjum stað getur líka vægast sagt verið speisað. Í fyrsta kaffitímanum finnst mér doldið eins og ég hafi mætt í ranga fermingaveislu. Allir sitja starandi á mann eins og maður skyggji á ungfrú júlí á dagatalinu, síðan byrja spurningarnar."Ertu próflaus maður ??? Hvernig ferðu eiginlega að??? Varstu tekinn fullur???" Og síðan að lokum mjög varfærnislega "ef þú ert með einhvern sjúkdóm ættirðu sennilegast að segja okkur frá því". Eftir að hafa svarað öllum spurningum með "nei" eða "bara" er ég stimplaður furðufugl, stórruglaður og trúandi til alls. Einu sinni sagði ég vinnufélaga mínum að þegar að það kæmi gamall strætisvagn þá bíði ég bara eftir að það komi annar og nýrri, auðvitað trúði hann því upp á mig. Já að vera bílprófslaus iðnaðarmaður á 21. öld kemur manni í hóp mestu furðufugla. Einu sinni réðu ég mig í vinnu hjá mesta sérvitring í faginu, manni sem er umtalaður og gert grín að á öllum trésmíðaverkstæðum á landinu fyrir undarlegheit og vitleysu. Hann hringdi í mig og spurði mig hvort að það væri rétt að ég væri ekki með bílpróf, þegar ég svaraði játandi heyrði ég umlað hinum megin á línunni "sei sei sei sei hann er skrítnari en ég þessi". Mér hefur stundum dottið í hug að gera þetta enn undarlegra með því að taka skipstjórnarréttindi eða flugpróf. Þó ekki væri nema til að hringja í pabba til að biðja hann um að skutla mér niður á höfn, ég þyrfti nefnilega að sigla fraktaranum til Tokío, eða sitja upp á Keflavíkurflugvelli í flugmannsjúníforminu og segja farþegunum mínum að ég sé að bíða eftir að mamma sækji mig ég sé nefnilega próflaus.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og sautján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband