strætópest og vinnupína


Fyrsti dagurinn í vinnu eftir frí leið eins og afskaplega tímafrek rótarfylling án allra deyfilyfja. Hann byrjaði reyndar ekki sem verst, en eftir að ég hlunkaðist út úr rúminu fór allt á verri veg. Eftir að hafa rótað í gegn um gríðarstórt sokkasafn mitt sem samanstendur einungis af ósamstæðum og götóttum sokkum og hnýtt á mig hermannaklossana arkaði ég af stað út í strætóskýli. Það var vægast sagt mjög pirraður hópur á stoppistöðinni, strætisvagninn kom nefnilega ekki. Ung stúlka með fléttur í hárinu, myndlistamaður með hanakamb, 29 ára smiður, skrifstofudama á sextugsaldri og eldri maður að koma úr Breiðholtslauginni. Yfirleitt væri þetta talinn sakleysislegur hópur en þennan morgun var hann hættulegt vopn. Eldri borgarinn hringdi niður í Strætó bs og heimtaði að fá að tala við forstjórann, unglingsstúlkan strunsaði þungstíg fram og til baka og tautaði blótsyrði, skrifstofudaman hneig niður á bekk í móðursýkiskasti og grét hástöfum "ég hef aldrei á æfi minni komið of seint í vinnuna". Myndlistagúrúið stillti úrinu sínu upp fyrir framan skýlið og tók mynd af því og tilkynnti að hann ætlaði að gera heila seríu af myndum og halda síðan sýningu sem myndi bera heitið "Leiðakerfi letingjanna". Ég sjálfur, hinn 29 ára smiður, keðjureykti og skalf af bræði yfir heimsku þessara leiðakerfishönnuða, gekk á milli fólksins og sagði þeim að það hlyti að hafa þurft mjög menntaða einstaklinga til að ná að klúðra þessu svona svakalega. Reyndar er ég ekkert pirraður út í leiðakerfið, er oft of seinn í vinnuna og missi iðulega af strætó en það er nú samt alltaf gott að hafa blóraböggul. Þegar að vagninn loks kom ruddist hópurinn inn í hann og stóð saman í hnapp fyrir framan bílstjórasætið, tuðandi hver ofan í annann. Bílstjórinn sem var greinilega ekki að fá sína fyrstu kvörtun í dag tók af stað með hressilegum rikk þannig að við ultum aftur í vagninn og sáum okkur þann kost vænstan að fá okkur sæti og eiga sem minnst samskipti við þennan geðsjúkling.


Þegar ég loksins kom í vinnuna eftir örlítið fleiri vonbrigði með strætókerfið gerði ég hræðilega uppgötvun. Öll leiðinlegu verkefnin sem lá svo mikið á að klára og ég var búin að trassa svo að einhver annar myndi vinna þau meðan ég var í fríi biðu mín enn. Og auðvitað lá enn meira á að klára þau núna. Rétt áður en ég fór í frí hrundi harði diskurinn í tölvustýrðu trésmíðagræjunni sem ég vinn á og þurfti ég því að eyða deginum standandi á grjótharðri steinplötunni í ærandi hávaða við að búa til forrit fyrir hurðir , skápa og borð. Og hefði sennilegast misst vitið algjörlega ef ekki hefði verið fyrir rómantíska birtu halogenljósanna sem munu víst vera af sömu gerð og Stasi notaði í einangrunarklefa sína. En dagurinn tók enda þótt seint væri og eftir að hafa fengið skoðunarferð um stóra hluta austur og vesturbæjar, um Kópavog og neðra Breiðholt, í boði Strætó bs komst ég loks heim í gettóið. Á morgun ætla ég að taka með mér kodda í strætó og kannski lítið teppi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband