8.8.2005 | 22:11
Á morgun mun ég hætta að reykja vegna þess að.
Í yfir 15 ár hef ég stutt dyggilega við bakið á R.J. Reynolds með því að versla af honum filtersígarettur. Þessi ameríski tóbaksbóndi sem býr að því sem ér best veit rétt fyrir utan Winston-Salem á litlum sveitabæ sem nefnist tobaccoville hefur á seinustu árum orðið fyrir gríðarlegum ofsóknum af hendi Þorgríms Þráinssonar og útlendum kollegum hans. Þessir menn hafa viljað halda því fram að sígarettur séu ógeðslegar, þær lykti illa, séu dýrar og umfram allt óhollar. Jafnvel þó á þeim sé filter sem augljóslega hreinsar öll meint eiturefni úr reyknum þannig að það eina sem situr eftir er algjörlega dauðhreinsað háfjallaloft með hressandi og góðu urtabragði. Illmenni þessi hafa jafnvel myndað með sér mafíu voldugra manna sem öfundast út í R.J út af þessum aurum sem ég styrki hann um og virðast þeir einskis svífast og staðráðnir í að hafa lífsviðurværið af eymingja tóbaksbóndanum. Innan vébanda þeirra eru vísindamenn og læknar sem virðast ekkert hirða um starfsheiður sinn og gefa út skýrslur um óhollustu reykinga í löngum bunum og hafa með áralangri baráttu sinni náð að sannfæra verulega marga um þessa skoðun sína. Á endanum sendi R.J frá sér svohljóðandi yfirlýsingu "R.J Reynolds Tobacco Company believes that smoking, in combination with other factors, causes disease in some individuals". Ekki urðu þessi orð til að róa Þorgrím eða förunauta hans, heldur tvíefldust þeir við þessi orð gamla mannsins og hvöttu nú alla reykingamenn til þess að lögsækja hann vegna þessarar játningar hans. Það undarlegasta við þetta er að stór hluti þeirra peninga sem ég hef eitt í það að styrkja þennan vin minn rennur beint í vasa óvina hans. Ég hef því ákveðið að hætta að versla mér tóbak í þeirri von að Reynolds gamli geti notið elliáranna í ró og næði.
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning