Færsluflokkur: Bækur

Birthday Party og The Cramps

Góð tónlist er algjörlega tímalaus, þessar tvær hljómsveitir hafa fylgt mér frá unglingsárunum og munu eflaust fylgja mér á elliheimilið

 

Birthday Party. Nick Cave upp á sitt allra besta.

 

The Cramps. Rauðahærða gítarséníið og vélbyssubrjálæðingurinn Posion Ivy hreinlega yfirtók drauma mína á tímabili. 


Af ökuleiknisverðlaunum, viðkvæmum málum, sólarparadís fyrir örlítið undarlega eldri borgara og litlu lyfjaskýi.

Ég skellti mér í sveitaferð með gúrmé kokknum og stórsmiðjunni Önnu Margréti í dag. Ekki var þó tilgangur ferðarinnar að njóta náttúrunnar eða skella sér á skíði, heldur að slá máli á innréttingar í nýja íbúðarhúsið að Kárastöðum. Anna sýndi í ferð þessari að hún fékk ekki bílprófið úr morgunkornspakka (eins og ég er alltaf að bíða eftir) eða út á sætt bros, heldur út á einstaka ökuleikni. Ég veiti önnu ökuleiknisbikarinn 2008 fyrir akstur í 12 vindstigum á skautasvelli með bundið fyrir augun.

bikar

 

 

Hekla Bjarnadóttir gerði athyglisverða uppgötun um daginn.  Við litla famelíen í Blikahólunum sátum við eldhúsborðið þegar Hekla lætur það út úr sér að kloflengd hennar sé sú sama og móður sinnar. Sigrún tók afar illa í þessa kenningu dótturinnar og heimtaði málband til þess að afsanna þessa firru í barninu. Ekki voru niðurstöður mælinga henni í vil og er þetta nú talið meðal "viðkvæmra mála" hér á heimilinu. Hekla reyndi þó að hugga mömmu sína með þeim orðum að hún gæti einfaldlega ekkert að þessu gert, hún væri bara svona STUTTBEINÓTT. Hekla sinnir nú þrifum á salernisaðstöðu heimilissins

 

 

Tengdafaðir minn steig á svið um daginn með hóp sem hann tilheyrir og nefnist hjólastólasveitin.  Tilkynnti hann þar opinberlega að til hefði staðið að þau hjón flyttu til Florida og myndu eyða elliárunum þar, en vegna stífrar lagasetningar þar í landi yrði ekkert úr því. Lögin sem ullu þessu bakslagi í áætlunum hans fjölluðu um bann við kynferðismökum við broddgelti og tímatakmarkanir á freti (það má víst aðeins prumpa hátt og falskt eftir klukkan 18,00). Ég hef því hafið sjálfstæða og algjörlega óháða rannsókn á þessum málum fyrir tengdaföður minn og hef komist að því að í Tælandi má hafa mök við broddgelti (og nánast hvað sem er annað) og það þykir merki um karlmennsku að prumpa af innlifun.

 

 

Heimsótti læknavaktina í gærkvöldi og sagði farir mínar ekki sléttar. Vegna heiftarlegra verkja í baki (sjá færslu hér á undan) hefði mér verið úthlutað verkjarlyfjum, en í einu kvalakastinu hefði ég í misgripum tekið lyfjaglasið og gefið gullfiskinum allt heila klabbið í morgunmat. Það hefði hvarflað að mér að sneiða helvítis gullfiskinn niður í bita og éta 2 bita 4 sinnum á dag  en hann liggi svo værðarlegur á botninum á skálinni sinni að ég geti hreinlega fái mig ekki til þess. Læknirinn sýndi þessu mikinn skilning og ávísaði á mig litlu lyfjaskýi, sagði mér að gefa honum 4 töflur á dag til að byrja með en smá minnka það svo. Það gæti verið lífshættulegt fyrir svona lítinn fisk að hætta svona "cold turkey". Ég átti hins vegar að fara í sund og vera þolinmóður.

 GULLFISKUR

Note to self. Kaupa gullfisk áður en  hringt er í næturlækni næst.

 

 


Leitt fyrir Björn Bjarnason.

Tarantúlan reynir að komast úr í búri sínu í dag.Björn Bjarna missti þarna alveg af tækifærinu á erfðabreytingum á sérsveit ríkislögreglustjóra. Spidermansveitin hefði getað alist upp í Vatnsmýrinni hjá Kára Stefánssyni þar sem stutt er í veiðilendur lögreglunnar. Liðsmenn hennar hefðu skriðið út í skjóli nætur og gómað mígandi fyllibyttur, heróínþyrsta bankaræningja og aðra óvini ríkisins á mettíma og komið þeim fyrir í þar til gerðum vef sem festur hefði verið í portið á lögreglustöðinni á hverfisgötu.

Í frítímum hefði Björn svo getað þjálfað litlu túlluna og skráð sig á heimsmeistaramótið í berjamó. 


mbl.is Tarantúlan reyndi að flýja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófarir og vellíðan

Mánudagsmorgunn, heil vinnuvika framundan full af tækifærum. Vinnuvika með skemmtilegasta starfsfólki í heimi að vinna við skemmtilegustu verkefni í heimi fyrir ánægðustu kúnna í heimi. Það var ekki að ástæðulausu að ég vaknaði með bros á vör. Teygði mig makindalega á rúmstokknum og lét hugann reika um verkefnalista vikunnar, beygi mig eftir vinnufötunum og BAMM. Verkur í baki sem leiðir niður í tær og upp í heiladingul. Þeyti svefnherbergishurðinni upp og skakklappast fram í stofu öskrandi og æpandi eins og Quasimoto á þungarokkstónleikum. Ranka við mér við eldhúsvaskinn ekki viss um hvort ég kom þangað til að skæla eða æla (langaði helst að gera bæði) þannig að ég ákveð að fá mér vatnsglas. Fálma eftir skáphurðinni en kemst að því að verkurinn hefur stillt sjónina yfir á abstrakt þannig að ég sá allt í mislitum flögum. Fálma eftir glasinu, fylli það af ísköldu vatni, skelli einu í mig og einu yfir mig. Sjónin rennur smá saman aftur yfir á autofocus. Fyrir framan mig situr Hekla, morgunkornsskeiðin hefur klossabremsað í höndum hennar og ég á greinilega alla hennar athygli. Pabbi, þú veist að það er Bolludagur í dag Öskudagur er ekki fyrr en á fimmtudaginn. Ég muldra eitthvað óskiljanlegt, tek eftir að ég held ennþá krampakenndu taki um vinnubuxurnar mínar og finn vinnudaginn hellast yfir mig eins og hressandi skammt af sjóðandi olíu. Þar sem ég var ekki fær um að klæða mig sjálfur kom Hekla mér til bjargar og klæddi föður sinn í skyndi, en lét þau orð fylgja að ég liti nú ekki út fyrir að vera vinnufær. Ég lét þessi orð hennar lítið á mig fá og arkaði af stað í vinnuna. Ég var kominn alla leið að eldhúsborðinu (4 skref) og stóð þar öskrandi eins og nátttröll þegar konan mín kemur fram. Eftir að hafa reynt að koma mér fyrir á einhverjum stað sem væri mér þóknanlegur (að komast upp í rúm 40 mín, að standa upp úr rúmi 30 mín, að labba inn í stofu og setjast í sófa 20 mín) tók hún til við að hringja í lækna og hjúkrunarfræðinga. Þar sem læknar virðast ekki vilja heimsækja fólk nema á nóttunni var henni bent á að panta fyrir mig sjúkrabíl og láta skutla mér upp á bráðavakt, sem hún og gerði. Dyrabjallan hringdi og inn gengu 2 menn með sjúkrabörur og stóra rauða tösku. Ég hafði dauðkviðið fyrir að þurfa að standa upp úr sófanum og láta hlunka mér á börum yfir hálfan bæinn en sá ótti var algjörlega ástæðulaus því mér voru gefin verkjalyf af sterkustu sort, og farið afar mjúklega með mig.Við komumst niður á Borgarspítala á mettíma og mér var komið fyrir í hvítmáluðum kassa sem enginn arkitekt myndi nokkurn tíman setja nafnið sitt við .Og þar sem ég ligg í morfínmókinu á dúnmjúku skýi hugsandi um Megas og Kant, kemur inn hvítklædd vera og  segir með djúpri bassarödd. "Sæll Bjarni Magnússon hvernig líður þér". Ég horfi óttasleginn á mannveruna fyrir framan mig og reyni að átta

image

mig á aðstæðum. Hvorki vængir né harpa, ekki svört möndlulaga augu né stór egglaga

haus, sennilegast er þetta manneskja. Að öllu líkindum læknir."Mér líður bara alveg ljómandi vel" segi ég, "en þér"? Hann kíkir á skrifblokk sem hann heldur á og spyr mig svo hvort ég hafi ekki komið vegna mikilla verkja í baki. Ég svara játandi og spyr hann til hvers í ósköpunum læknar noti tónhvísl. Hann horfði á mig ráðvilltur á svip og spurði mig hvort það gæti hugsast að ég hefði fengið einhver verkjalyf. Eftir að hafa fengið það staðfest hóf hann skoðun á mér. Hann lyfti á mér fótunum, lét mig standa á öðrum fæti, lét mig spyrna út í vegg ofl en allar þessar æfingar ,sem hefðu gert mig vitstola af kvölum fyrr um morguninn voru nú einungis kitlandi og skemmtilegar. Hann hristi hausinn og sendi mig í myndatöku.  Þegar ég kom úr myndatökunni voru  kvalirnar farnar að ná yfirhöndinni aftur.  Kannski þess vegna fannst mér lítil ástæða til að brosa með lækninum þegar hann sagði mér að þetta væri ekki brjósklos heldur sennilegast þursabit eða hexeskud eins og það héti á útlensku. Það þýðir Bjarni Magnússon, hélt hann áfram, að við höfum ekki nokkra hugmynd um hvað er að þér, en sennilegast tekur þetta 7-14 daga. Hann rétti mér 2 lyfseðla og sagði mér að þetta gæti kannski hjálpað mér eitthvað með verkina en sennilegast væri sjúkraþjálfun og sund málið.Ég hlunkaði mér heim, Bryð töflur og læt renna í hitapoka. Það er 30 ára bið eftir því að ég fái að hitta heimilislækni svo hann geti vísað mér á sjúkraþjálfara og sundlaugin er jafn fjarri mér og Júpíter.


Er þetta málið?

Mín ektakvinna fullyrðir að vistin á blog.is afar hressandi, þannig að ég ætla að athuga hvernig mér líka húsakinnin. Hingað til hef ég átt öll mín bloggviðskipti við amerískan bloggrisa, en vegna einstakra erfiðleika við innskráningu og mjög stopullar birtingar hef ég ákveðið að segja skilið við þann ágæta mann.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband