Netakaup og grænmygluheili

Það er bögg að vera bloggari. Ég hef svo mikið samviskubit yfir bloggleysi mínu og vonbrigðum dyggra lesenda minna sem hljóta að vera farnir að fylla hálfan tug eða svo að ég er á jaðri taugaáfalls. Ég er reyndar tæplega nettengdur eins og er en það er varla gild afsökun í nútímasamfélagi þar sem fólk vafrar um netið í flugvélum yfir miðju Kínahafi eða jafnvel á ísskápunum sínum sem eru sumir hverjir víst nettengdir. Og síðan hef ég aðgang að antík tengingu þ.a.e.s. símalínu foreldra minna, sem er svona doldið eins og að vera komin í sveitasæluna þar sem hlutirnir gerast á hraða snigilssins. Reyndar standa þessi tengingarmál til bóta þar sem ég batt skóna á frúna og dreif hana í netabúðina að versla okkur adsl. Afgreiðslukonan horfí á okkur eins og við hefðum verið að skríða út úr helli og værum að biðja hana að kenna okkur að kveikja eld, enda augljóslega nútímakvendi með allskyns snúrur úr hausnum á sér, míkrafón við munninn og eitthvað undratæki með blikkljósum í hægra eyranu. Mér stóð stuggur af þessari konu og steinhætti strax við að biðja um afsl. tengingu, hún hefði ábyggilega ekki tekið því vel. Ég hef nefnilega séð svona konur áður, í sjónvarpinu. Nánar tiltekið í Star Trek þáttunum og þess vegna bar ég strax kennsl á leiserbyssuna við hlið dulbúna símtækissins á borðinu, ég stóð upp, beið við dyrnar og ákvað að láta hina fölu frú sjá um viðskiptin. Átti hálfpartinn von á að Klingoninn við borðið segði með gjallandi málmröddu að við værum ólögleg eintök á þessu tímaskeiði, við hefðum lent í rafeindagasslóð sem hefði myndað tímasamfellu og því miður væri það skylda hennar að eyða okkur. En auðvitað gerðist þetta ekki og eina háskakvendið sem lét mig kenna á því var mín heittelskaða sem setti mig í algjört Trek bann það sem eftir er. Þannig að nú er bara að skafa mygluna af heilanum og reyna að koma krílinu í gang og fara að skrifa einhverja óendanlega visku netið.

Yfir og út.

Kannski er ég bara að bíða eftir að það vaxi á mig vængir.

Eins og áður hefur komið fram hef ég aldrei tekið bílpróf. Þetta þykir mörgum hið undarlegasta mál og hef ég því allt frá 17 ára aldri þurft að berjast með kjafti og klóm til að verja þessa þessa mjög svo ómeðvituðu ákvörðun mína. Á tímabili var ég jafnvel farinn að hugsa mikið um að breyta þessu í meðvitaða ákvörðun. Ég gæti borið því við að börnin á Indlandi þyrftu vinnuna við að sauma skó eða að ég væri þess fullviss að hjólið væri slæm uppfinning, mitt form væri kassi. En svona röksemdafærslur myndu sennilegast koma mér í tóm vandræði og að segjast vera umhverfisverndarsinni eru allt of leiðinleg rök til að ég nenni að beita þeim. Ég hef því upphugsað fullkomlega skothelt svar við spurningum sem ég fæ um þetta. Mitt svar er "af því bara". Það tók mig mörg ár að komast að þessu svari sem ég hef þó kunnað allt mitt líf. Einfalt, gott og algjörlega rakalaust svar sem engin rök duga á. Það eru nefnilega ekki til nein góð rökstudd svör við þessari spurningu, enda væru öll rök af minni hálfu hreinasta lygi.
Að mæta í vinnu á nýjum stað getur líka vægast sagt verið speisað. Í fyrsta kaffitímanum finnst mér doldið eins og ég hafi mætt í ranga fermingaveislu. Allir sitja starandi á mann eins og maður skyggji á ungfrú júlí á dagatalinu, síðan byrja spurningarnar."Ertu próflaus maður ??? Hvernig ferðu eiginlega að??? Varstu tekinn fullur???" Og síðan að lokum mjög varfærnislega "ef þú ert með einhvern sjúkdóm ættirðu sennilegast að segja okkur frá því". Eftir að hafa svarað öllum spurningum með "nei" eða "bara" er ég stimplaður furðufugl, stórruglaður og trúandi til alls. Einu sinni sagði ég vinnufélaga mínum að þegar að það kæmi gamall strætisvagn þá bíði ég bara eftir að það komi annar og nýrri, auðvitað trúði hann því upp á mig. Já að vera bílprófslaus iðnaðarmaður á 21. öld kemur manni í hóp mestu furðufugla. Einu sinni réðu ég mig í vinnu hjá mesta sérvitring í faginu, manni sem er umtalaður og gert grín að á öllum trésmíðaverkstæðum á landinu fyrir undarlegheit og vitleysu. Hann hringdi í mig og spurði mig hvort að það væri rétt að ég væri ekki með bílpróf, þegar ég svaraði játandi heyrði ég umlað hinum megin á línunni "sei sei sei sei hann er skrítnari en ég þessi". Mér hefur stundum dottið í hug að gera þetta enn undarlegra með því að taka skipstjórnarréttindi eða flugpróf. Þó ekki væri nema til að hringja í pabba til að biðja hann um að skutla mér niður á höfn, ég þyrfti nefnilega að sigla fraktaranum til Tokío, eða sitja upp á Keflavíkurflugvelli í flugmannsjúníforminu og segja farþegunum mínum að ég sé að bíða eftir að mamma sækji mig ég sé nefnilega próflaus.

klaufaskapur minn

Ég er klaufi. Við því er ekkert að gera ég hef verið og mun alltaf vera klaufi. Reyndar las ég einhverstaðar að það væri til læknisfræðilegt heiti á svona klaufaskap, þetta heitir víst dispraxia. Það getur verið kómískt að vera haldinn þessum krankleika en einhvernvegin fer húmorinn í hlutunum alltaf fram hjá mér. Td. var ég að hjálpa dóttur minni henni Heklu að skrifa ósýnilega skrift með sítrónusafa. Til þess að skriftin komi svo í ljós þarf að hita blaðið. Rödd skynseminar þ.e.a.s. Heklu sagði að við skildum strauja blaðið. Hin föli faðir, minnugur þess að hafa séð þetta gert í hinni frábæru mynd "Í nafni rósarinnar" þá með eld, dró upp Zippóinn. Svipurinn á Heklu hefði átt að segja mér að ég ætti að setja upp strauborðið. Hún var alveg eins á svipinn þegar ég ætlaði að losa stífluna úr tómatsósuflöskunni með því að kreysta bara nógu fast og þegar mér tókst næstum að gera við miðstöfðarofninn með steikarhnífnum. En ég kveikti auðvitað á zippónum og byrjaði að hita blaðið ofurvarlega. Auðvitað kviknaði í andskotans blaðinu og þar sem ég kunni nú ekki alveg við að fleygja því í sófann eða á 500 króna persnesku mottuna hennar mömmu sem ég keypti í rúmfatalagernum handa henni og gaf henni í jólagjöf um árið gekk ég af stað með það pollrólegur að eldhúsvasknum. Þessi taóíska rósemd mín var af öllum viðstöddum talin undraverð. Þessi þrjú skref sem hún entist. Á fjórða skrefi var ég farinn að öskra eins og Tarzan og á fimmta eins og bróðir hans. Þegar ég komst loks að eldhúsvasknum var ég búinn að gefa frá mér tóna sem hefðu fengið Maríu Markan og Jimi Hendrix til að verða græn úr öfund. Blaðið lá allt sundurbrennt á gólfinu og það eina sem náði í vaskinn var sótug hendin á mér. Og almáttugur hvað hún þurfti á því að halda. Ég held að ég hafi aldrei séð umhyggjusamt fólk eins brosmilt og þegar fjölskyldan kom til að athuga líðan mína. Og ég held að aldrei hafi nokkur maður verið eins fúll yfir umhyggju sinna nánustu á sér. Það versta við þetta er samt kannski að ég mun alveg pottþétt ekki læra neitt af þessu. Á morgun verð ég ábyggilega farin að gera líkan af Hallgrímskirkju úr títuprjónum eða sauma mér hengirúm úr öllum stöku sokkunum mínum

Ég vil ekki vera naglfastur

Það er ein mínúta í að föstudagurinn langi sé liðinn þegar ég skrifa þetta. Lyklaborðið er gegnblautt af tárum mínum og ekkasogin í mér hljóma eins og í sjóveikri fílahjörð í kafbát. Ég er samt ekki trúaður maður, en ég hef ómælda meðaumkvun með þessum kollega mínum úr trésmíðinni sem vegna bágra launakjara hraktist úr starfi og fór að ganga um hálfnakinn og tautandi. Þessi maður endaði svo lífið við aðstæður sem alla trésmiði dreymir ægilegar martraðir um. Hann var negldur á spítu sem hann var sjálfur látinn bera á tilætlaðan framkvæmdastað. Já aumingja Jesú. Með fjórum nöglum varð hann naglföst eign mannkynsins.Þrátt fyrir algjört trúleysi mitt finnst mér hann Jesú fallegur maður með fallegar hugsjónir. Verst með þessar ranghugmyndir hans um föður sinn, meintan skapara alls, þann sem kallar sig því undarlega nafni Guð.

Ég er nefnilega dolítill sökker fyrir frelsaranum t.d. safna ég af honum myndum. Jesú með börnunum, Jesú með lærisveinunum, Jesú með lömbunum eða að halda fjallræðuna eru myndefni mér að skapi. Allt nema Jesú á krossinum með níu tommu naglana í gegnum hendur og fætur. Ég held að ég eigi ekki einn einasta kross með honum á eða mynd. Sennilegast minnir það mig of mikið á að ég er strandaglópur í þessu fagi mínu án alls áhuga míns á því og að ég hef ekki hugmynd um hvað í ósköpunum ég á að gera ef ég hætti að smíða. Af hverju í ósköpunum gátu þeir ekki brennt hann á báli eða grýtt hann til dauða? Þá væri ég kannski frelsaður maður í dag og farinn að læra geimréttarhagfræði.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband