6.9.2005 | 22:51
Hver elur upp hvern??
Litla barnið mitt hún Hekla á afmæli í dag. Hún er algjör sólargeisli þessi stúlkukind og er endalaus uppspretta skemmtilegra vangaveltna og spurninga enda sækir hún greindina greinilega til móður sinnar. Að setjast niður og ræða málin við Heklu fer oft á annan veg en ég ætla mér. Maður hreinlega býst ekki við því að litla barnið sitt taki mann í bakaríið áður en maður er varla farinn að opna munninn. T.d fannst mér ástæða til að taka umgengismál heimilissins til umræðu um dagin með sérstakri áherslu á vistarverur téðs barns og settist ég því niður með henni í stofunni.
Ég: Hekla mín blablablablablabla bla blabla blablabla bla bla blablabla þú þarft að taka til í herberginu þínu á hverjum degi.
Hekla: Horfir á mig mæðuleg um stund. Pabbi. Á hverjum degi? Finnst þér það nú ekki fullmikið ég meina þú nennir því ekki einu sinni. Átt þú ekki að vera fyrirmynd hérna? Ég meina ég er bara barn sko. Ok ég skal gera við þig samning ég skal taka til í herberginu mínu þegar mér finnst þurfa þess og þú tekur til frammi þegar þér finnst þurfa þess.
Ég: Heilinn á mér fann engar færar árásar né flóttaleiðir út úr þessari klemmu þannig að ég sagði. Öööö Hmmmm öö
Hekla. Smellir fingrum. Mér finnst þetta nú bara sanngjarnt. Ég verð inn í herbergi ef þú þarft að tala við mig. Ég þarf nefnilega að taka til.
Hér er annað dæmi um leikni mína í rökræðum við sama barn
Eldri dóttir mín hún Bryndís er líka ansi lunkin í kollinum. Ég hef aldrei séð 10 standa eins oft á einkunaspjaldi og á því seinasta sem hún fékk. Nema þá ef skyldi vera frá námsárum mínum nema að hjá mér voru þessir tölustafir slitnir í sundur með kommu. Sem betur fer finnst Bryndísi ekki eins gaman að rökræða við föður sinn. Henni finnst mun skemmtilegra að vinna mig í skák eða skella á mig svínslega þungum spurningum um ólíklegustu hluti. Einu sinni fannst mér ég vera nokkuð flinkur að teikna, hugleiddi meira að segja að gera það að lífsviðurværi mínu. Þessi 12 ára dóttir mín hefur siglt fram úr mér á því sviðinu svo um munar og verð ég bara að segja eins og er að hún er alveg ótrúlega leikinn með blýantinn auk þess sem hún er farin að vinna mjög flotta grafík í tölvunni sinni. Einstaklega listræn og flink stelpa
Ég ætla að lokum að óska henni Heklu minni hjartanlega til hamingju með afmælið með einlægri ósk minni um að hún rökræði meira við móður sína næsta árið.
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2005 | 20:31
Um glansýmind reykinga og hármodelið pabba.
Þessi bloggsíða hefur skelft mig meira en nokkuð annað undanfarna daga. Ástæðan fyrir þessari ofsahræðslu minni felst í seinustu orðum mínum hér á síðunni, þ.e.a.s um áætlanir mínar um að hætta að reykja. Ég er nefnilega ekki alveg hættur að reykja. Þó tolldi ég í 2 daga án þess að bragða Bensen, Blásýru, Tjöru eða nokkuð annað af hressandi aukaefnum tóbakssins. Ég hef samt ákveðið að láta ekki í minni pokan fyrir þessari fíkn minni heldur ráðast á hana vopnaður nikotínbættu, jórturleðri, plástrum og nefspreyi. Ekki er það þó nikótínleysið sem hræðir mig við að hætta að reykja enda hefur því klárlega verið komið fyrir kattarnef heldur er það hve stór hluti af persónuleika manns það er að vera reykingamaður. Þetta hljómar kannski kjánalega en ég hugsa að allir reykingamenn viti hvað ég á við. Þetta sést greinilega í gömlum bíómyndum þar sem sígaretta og viskíglas var gjarnan notað til að undirstrika ákveðna þætti í persónuleika viðkomandi sem yfirleitt var einhver kynferðislegur, grófheflaður sjarmi, hætta og dulúð meðan að sá sem ekki reykti virtist venjulega leggja metnað sinn í að skera sunnudagssteikina og stemma af heimilisbókhaldið. Þetta er svona eins og að taka skrúðmælgina af Ólafi Ragnar Grímsyni eða smekkvísina af Völu Matt.
Í öðrum fréttum af hinum föla föður ber helst að nefna að ég er orðin sköllóttur. Hvorki er það vegna hás aldurs eða mikilla hártogana. Þannig er mál með vexti að frúin þurfti að vinna óvenjulengi eitt kvöld í vikunni sem leið og sátum við Hekla því ein og yfirgefin heima án alls eftirlits. Eitthvað fannst henni ég illa til hafður svo hún dró fram burstann og fór að reyna að ná völdum á brúsknum á hausnum á mér sem hefur þann skemmtilega eiginleika að standa alltaf allur upp í loftið. Þetta var mikil barátta og varð þeirri stuttu að orði milli samanbitinna tannanna að þetta væri óvinnandi verk ég yrði hreinlega að fara að drífa mig í klippingu. Eitt leiddi að öðru og áður en ég vissi af var ég sestur inn á klósett, fyrir framan spegilinn og 7 ára gömul dóttir mín farin að snyrta á mér hárið. Lítillega í fyrstu en eftir að hún var farin að ná tökum á þessu varð hún stórtækari. Það verður ekki af því skafið, barnið er náttúrutalent í þessu sem öðru sem hún tekur sér fyrir hendur. Ýmsir stílar voru reyndir á hausnum á mér hver öðrum betri en að endingu var ákveðið að mér færi best að vera án alls hárs þar sem einstaklega erfitt er að hafa stjórn á því. Hins vegar hefur veðurfarið verið sköllóttum einstaklega óhagstætt síðan að þessi hársnyrting fór fram og biðla ég því til góðhjartaðra prjónakvenna sem lesa þetta blogg (Ása Hildur) að prjónuð verði á mig húfa.
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2005 | 22:11
Á morgun mun ég hætta að reykja vegna þess að.
Í yfir 15 ár hef ég stutt dyggilega við bakið á R.J. Reynolds með því að versla af honum filtersígarettur. Þessi ameríski tóbaksbóndi sem býr að því sem ér best veit rétt fyrir utan Winston-Salem á litlum sveitabæ sem nefnist tobaccoville hefur á seinustu árum orðið fyrir gríðarlegum ofsóknum af hendi Þorgríms Þráinssonar og útlendum kollegum hans. Þessir menn hafa viljað halda því fram að sígarettur séu ógeðslegar, þær lykti illa, séu dýrar og umfram allt óhollar. Jafnvel þó á þeim sé filter sem augljóslega hreinsar öll meint eiturefni úr reyknum þannig að það eina sem situr eftir er algjörlega dauðhreinsað háfjallaloft með hressandi og góðu urtabragði. Illmenni þessi hafa jafnvel myndað með sér mafíu voldugra manna sem öfundast út í R.J út af þessum aurum sem ég styrki hann um og virðast þeir einskis svífast og staðráðnir í að hafa lífsviðurværið af eymingja tóbaksbóndanum. Innan vébanda þeirra eru vísindamenn og læknar sem virðast ekkert hirða um starfsheiður sinn og gefa út skýrslur um óhollustu reykinga í löngum bunum og hafa með áralangri baráttu sinni náð að sannfæra verulega marga um þessa skoðun sína. Á endanum sendi R.J frá sér svohljóðandi yfirlýsingu "R.J Reynolds Tobacco Company believes that smoking, in combination with other factors, causes disease in some individuals". Ekki urðu þessi orð til að róa Þorgrím eða förunauta hans, heldur tvíefldust þeir við þessi orð gamla mannsins og hvöttu nú alla reykingamenn til þess að lögsækja hann vegna þessarar játningar hans. Það undarlegasta við þetta er að stór hluti þeirra peninga sem ég hef eitt í það að styrkja þennan vin minn rennur beint í vasa óvina hans. Ég hef því ákveðið að hætta að versla mér tóbak í þeirri von að Reynolds gamli geti notið elliáranna í ró og næði.
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2005 | 21:03
strætópest og vinnupína
Fyrsti dagurinn í vinnu eftir frí leið eins og afskaplega tímafrek rótarfylling án allra deyfilyfja. Hann byrjaði reyndar ekki sem verst, en eftir að ég hlunkaðist út úr rúminu fór allt á verri veg. Eftir að hafa rótað í gegn um gríðarstórt sokkasafn mitt sem samanstendur einungis af ósamstæðum og götóttum sokkum og hnýtt á mig hermannaklossana arkaði ég af stað út í strætóskýli. Það var vægast sagt mjög pirraður hópur á stoppistöðinni, strætisvagninn kom nefnilega ekki. Ung stúlka með fléttur í hárinu, myndlistamaður með hanakamb, 29 ára smiður, skrifstofudama á sextugsaldri og eldri maður að koma úr Breiðholtslauginni. Yfirleitt væri þetta talinn sakleysislegur hópur en þennan morgun var hann hættulegt vopn. Eldri borgarinn hringdi niður í Strætó bs og heimtaði að fá að tala við forstjórann, unglingsstúlkan strunsaði þungstíg fram og til baka og tautaði blótsyrði, skrifstofudaman hneig niður á bekk í móðursýkiskasti og grét hástöfum "ég hef aldrei á æfi minni komið of seint í vinnuna". Myndlistagúrúið stillti úrinu sínu upp fyrir framan skýlið og tók mynd af því og tilkynnti að hann ætlaði að gera heila seríu af myndum og halda síðan sýningu sem myndi bera heitið "Leiðakerfi letingjanna". Ég sjálfur, hinn 29 ára smiður, keðjureykti og skalf af bræði yfir heimsku þessara leiðakerfishönnuða, gekk á milli fólksins og sagði þeim að það hlyti að hafa þurft mjög menntaða einstaklinga til að ná að klúðra þessu svona svakalega. Reyndar er ég ekkert pirraður út í leiðakerfið, er oft of seinn í vinnuna og missi iðulega af strætó en það er nú samt alltaf gott að hafa blóraböggul. Þegar að vagninn loks kom ruddist hópurinn inn í hann og stóð saman í hnapp fyrir framan bílstjórasætið, tuðandi hver ofan í annann. Bílstjórinn sem var greinilega ekki að fá sína fyrstu kvörtun í dag tók af stað með hressilegum rikk þannig að við ultum aftur í vagninn og sáum okkur þann kost vænstan að fá okkur sæti og eiga sem minnst samskipti við þennan geðsjúkling.
Þegar ég loksins kom í vinnuna eftir örlítið fleiri vonbrigði með strætókerfið gerði ég hræðilega uppgötvun. Öll leiðinlegu verkefnin sem lá svo mikið á að klára og ég var búin að trassa svo að einhver annar myndi vinna þau meðan ég var í fríi biðu mín enn. Og auðvitað lá enn meira á að klára þau núna. Rétt áður en ég fór í frí hrundi harði diskurinn í tölvustýrðu trésmíðagræjunni sem ég vinn á og þurfti ég því að eyða deginum standandi á grjótharðri steinplötunni í ærandi hávaða við að búa til forrit fyrir hurðir , skápa og borð. Og hefði sennilegast misst vitið algjörlega ef ekki hefði verið fyrir rómantíska birtu halogenljósanna sem munu víst vera af sömu gerð og Stasi notaði í einangrunarklefa sína. En dagurinn tók enda þótt seint væri og eftir að hafa fengið skoðunarferð um stóra hluta austur og vesturbæjar, um Kópavog og neðra Breiðholt, í boði Strætó bs komst ég loks heim í gettóið. Á morgun ætla ég að taka með mér kodda í strætó og kannski lítið teppi.
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2005 | 22:15
Brúðkaups/afmæli
Barnsmóðir mín og kærasta unglingsára minna, Ingunn Stefánsdóttir gifti sig líka í dag og óska ég henni og Einari alls hins besta.
Ég hef ákveðið að halda þeim til heiðurs upp á brúðkaupsafmæli þeirra hjóna á hverju ári með því að bjóða mínum nánustu í kaffi og kökur
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2005 | 17:03
Ég hef verið með óráði undanfarna þrjá daga.
Föli: (Með stjörf augu og rennsveitt andlit teygir titrandi hendurnar í átt að sinni heittelskuðu.)
Sigrún mín ég verð (smávægilegt hóstakast) verð að fá að ræða við þig.
Sigrún: Hvað er það?
Föli: (Grípur titrandi um hendur hennar og teygir hausinn í átt til hennar með mikilli áreynslu, sagt svo lágt að varla heyrist)
Ef ég lifi (hausinn fellur máttleysislega út á koddann) viltu þá lofa mér?
Sigrún: (Með óttablik í augum, færir eyrað upp að munn hans ) Já ástin mín, hvað sem er
.
Föli: Viltu þá lofa? (Notar alla sína orku til að reysa hausinn örlítið) Lofa að ég þurfi aldrei að fara aftur í Bónus að versla? (Hausinn fellur blýþungur á koddann, fellur í algjört öngvit)
Sigrún: Já astin mín auðvitað.
Það er skemmst frá því að segja að VIÐ höfum flutt öll okkar mat og nýlenduvöruviðskipti yfir í krónuna.
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2005 | 23:32
Sem betur fer er ég frekar heill á geði.
Móðir mín. Kona á sjötugaldri með litað dökkt hár, alvarlega haldin af óhreinindaóþoli og getur með engu móti komist gegn um daginn án þess að rykmoppa a.m.k. tvisvar sinnum og vaska upp áður en hún fer í vinnuna. Mjög listhneigð og gefandi.
Helstu karaktereinkenni. Getur auðveldlega gert úlfaldahjörð úr svo litlu sem bliki í augum mýflugupabba. Alvarlega ofvirkur einstaklingur
Faðir minn. Sextugur maður, mikill á velli með (að eigin sögn) feiknagóða bassarödd. Á það til að festast í eigin draumaheimi þegar kemur að bókmenntum eða tónlist og vill þá gjarnan að allir sem hann hittir deili áhuganum með honum. Mikill hugmyndasmiður og úrræðagóður trésmiður sem veigrar sér ekki við að nota kústsköft í skartgripaskrín og pallettur í sólpalla.
Helstu karaktereinkenni. Einstök góðmennska. Á það til að vitna í Hringadrottinssögu við undarlegustu tækifæri td. þegar hann er alveg í spreng á leiðinni á klósettið eða þegar blásið er á kertin í barnaafmæli.
Hin föla frú. Kona langt komin á þrítugaldur, gengur með vellyktandi í handtösku sinni og hefur verið með lit í hári frá því í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur. Öll frekari ummæli um þennan einstakling gætu verið mér afskaplega hættuleg
Helstu karektereinkenni. Geislandi gleði, útsjónasemi, skynsemi og einstök fegurð.
Æskuvinur minn Jens pétur. Afar undarlegt eintak af homo sapien. Getur td. með engu móti ákveðið hvort honum langi að læra til fasteignasala eða járnsmiðs. Menntaðasti blöðruprentari á landinu, með 40 stunda sjálfmenntun á hálfsjálfvirka blöðruprentvél að baki.
Helstu karaktereinkenni. Þetta telst varla eðlilegt
Þessi listi gæti verið mikið lengri en þess gerist varla þörf úr þessu.
Ég hef nefnilega ákveðið að skera efasemdaálfin á háls.
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2005 | 00:34
Ber ég með mér bróðurlegan kærleik eða kannski bara eymd og volæði?
Þrem dögum seinna var ég á gangi í miðbæ Reykjavíkur, nokkuð góður með mig á heimleið eftir að hafa slæpst töluvert meira en venjulega í vinnunni. Á móti mér kemur par með barnavagn og alveg hreint að sligast undan þungum pokum úr grísabúðinni (þar sem Íslendingum þykir hagkvæmast að versla). Þegar ég er að ganga fram hjá þeim lítur maðurinn á mig og segir "fyrirgefðu vinur megum við nokkuð aðeins ræða við þig". Þvílíkt panikk. Öll gleymdu fylleríin og gömlu dyrabjölluötin flugu fyrir hugskot mér eins og byssukúla. Hvað gat þetta fólk viljað mér??? "Ég er saklaus" sagði ég snubbótt og ætlaði að halda mína leið en konan hafði stillt sér fyrir framan mig og sagði með blíðri röddu." Við heitum ??? og ??? og okkur langar afskaplega að bjóða þér á biblíukvöld heima hjá okkur á miðvikudagskvöldið. Þetta er svona biblíufræðsla og leshringur, heldur þú að þú gætir ekki séð þér fært að koma". Ég lofaði að hugsa málið gaf þeim upp netfangið mitt og hljóp eins hratt og tjöruhúðuð lungu mín leyfðu í burt.
Viku seinna var ég að ganga upp Laugarveginn í úrhellisrigningu og roki svona heldur mikið að flýta mér heim þegar ég kem auga á mann hinumegin við götuna. Það vakti athygli mína að þessi maður sem ég hafði aldrei mér vitanlega séð áður virtist hafa miðað mig út og nú gekk hann rösklega yfir götuna í átt til mín, stansaði fyrir framan mig leit á mig sigri hrósandi eins og hann hefði verið villtur í óbyggðum í tíu ár og ég væri fyrsta manneskjan sem hann hitti. "Góðan dag" sagði hann glaðlega, "Ég heiti ??? og mig langar svo mikið að bjóða þér á umræðukvöld um biblíuna heima hjá móður minni".
Ég hef ákveðið að draga engar ályktanir af þessu. En..............
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2005 | 23:16
Víkingalottó á morgun
.
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2005 | 22:40
Listin að næla sér í húsnæði og fá milljón $ hugmynd í leiðinni
Breytt 31.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)