Alfa maðurinn og smiðjan

þegar ég byrjaði að vinna á trésmíðaverkstæði fyrir svona eins og einum sjálfræðisaldri síðan var það karlastarf að vera smiður. Menn blótuðu hátt og myndarlega, slógust á vinnustaðafylleríunum og rifust í kaffitímum. Klámdagatöl voru talin með klassískri list, wiskí var fæðubótaefni og bjór var sjöundi fæðuflokkurinn. Menn létu það lítið sem ekkert fara í taugarnar á sér þó að ekki fyndist hreinn bolli í fyrirtækinu eða að borðtuskan væri farin að mygla lítillega, hinsvegar skapaðist allsherjar neyðarástand ef bjórsjóðurinn tæmdist. Þetta var jú karlavinnustaður , Grettir Ásmundarson, Morgan Kane og Humphrey Bogart réðu þar ríkjum og gáfu mönnum einn á snúðinn ef þeir ætluðu að fara að vera með eitthvað kellingavæl. Það þótti því alltaf góður brandari að ráða konu í vinnu, Kvennsmiður ( hér eftir smiðja) var í besta falli talin þokkalegur föndrari, nýtileg í smíðanám í grunnskólum eða dúlleríi á elliheimilum. Þessar nokkru huguðu smiðjur sem hættu sér inn á þessi grautmygluðu yfirráðasvæði svita, skeggs og andfýlu fengu því heldur betur að kynnast kvikindisskap Alfa mannsins, mannsins frá  Saurbæ í Neanderdal. Það þótti feikisniðugt að byrja á að senda smiðjuna á kaffistofuna til að þrífa, næst var hún beðin um að stinga út úr haughúsinu. Ef viðkomandi smiðja var ósátt við þennan hluta starfsins og vildi meina að menntun sín í trésmíði gæti nýst betur, svona fyrst hún væri nú stödd á trésmíðaverkstæði voru fundin svo svínslega erfið verkefni handa henni að vinna að Alfa manninum hefði aldrei dottið í hug að vinna þau einn, eins og að smíða blýþungar eldvarnarhurðir eða saga niður 200 kg harðviðarblokkir. Þegar að smiðjan gat síðan ekki unnið þessi svínslega erfiðu störf ein og yfirgefin var henni vinsamlegast bent á að hún væri bara kona, klósettið þrifi sig ekki sjálft.

 art_60274_chicks1

                                                           

 

 

 

                             

                                 Síðan eru liðin 18 ár.

 

 

 

 

 Í dag vinn ég enn á trésmíðaverkstæði. Það hanga engar berar stelpu á veggjunum, viskíið hefur vikið fyrir grænu te, bjórinn fyrir sykurskertum eplasvala. Á vinnustaðafylleríunum fara allir á trúnó, og kaffitímarnir eru að stórum hluta ætlaðir til umræðu um andleg málefni og augnháraplokkun. Ofan á örbylgjuofninum liggur ekki lengur mygluð borðtuska heldur spjald af getnaðarvarnarpillum og klósettaðstaðan er skínandi hrein, með lítilli hillu fyrir túrtappa. Á verkstæðinu vinnum við 2 karlmenn og 4 kvenmenn. Nei þetta er ekki grín. Ég er farin að vita allt um brjóstagjafir, rakakrem og skálastærðir á brjóstahöldurum. Gott ef það er ekki búið að skrá mig í handprjónasambandið. En ekki er ég þó að kvarta neitt yfir þessari breytingu, mér finnst hún alveg hreint frábær. Svona fyrir utan að nú sé ég um þrifin á kaffistofunni.

 

 

 


Birthday Party og The Cramps

Góð tónlist er algjörlega tímalaus, þessar tvær hljómsveitir hafa fylgt mér frá unglingsárunum og munu eflaust fylgja mér á elliheimilið

 

Birthday Party. Nick Cave upp á sitt allra besta.

 

The Cramps. Rauðahærða gítarséníið og vélbyssubrjálæðingurinn Posion Ivy hreinlega yfirtók drauma mína á tímabili. 


Af ökuleiknisverðlaunum, viðkvæmum málum, sólarparadís fyrir örlítið undarlega eldri borgara og litlu lyfjaskýi.

Ég skellti mér í sveitaferð með gúrmé kokknum og stórsmiðjunni Önnu Margréti í dag. Ekki var þó tilgangur ferðarinnar að njóta náttúrunnar eða skella sér á skíði, heldur að slá máli á innréttingar í nýja íbúðarhúsið að Kárastöðum. Anna sýndi í ferð þessari að hún fékk ekki bílprófið úr morgunkornspakka (eins og ég er alltaf að bíða eftir) eða út á sætt bros, heldur út á einstaka ökuleikni. Ég veiti önnu ökuleiknisbikarinn 2008 fyrir akstur í 12 vindstigum á skautasvelli með bundið fyrir augun.

bikar

 

 

Hekla Bjarnadóttir gerði athyglisverða uppgötun um daginn.  Við litla famelíen í Blikahólunum sátum við eldhúsborðið þegar Hekla lætur það út úr sér að kloflengd hennar sé sú sama og móður sinnar. Sigrún tók afar illa í þessa kenningu dótturinnar og heimtaði málband til þess að afsanna þessa firru í barninu. Ekki voru niðurstöður mælinga henni í vil og er þetta nú talið meðal "viðkvæmra mála" hér á heimilinu. Hekla reyndi þó að hugga mömmu sína með þeim orðum að hún gæti einfaldlega ekkert að þessu gert, hún væri bara svona STUTTBEINÓTT. Hekla sinnir nú þrifum á salernisaðstöðu heimilissins

 

 

Tengdafaðir minn steig á svið um daginn með hóp sem hann tilheyrir og nefnist hjólastólasveitin.  Tilkynnti hann þar opinberlega að til hefði staðið að þau hjón flyttu til Florida og myndu eyða elliárunum þar, en vegna stífrar lagasetningar þar í landi yrði ekkert úr því. Lögin sem ullu þessu bakslagi í áætlunum hans fjölluðu um bann við kynferðismökum við broddgelti og tímatakmarkanir á freti (það má víst aðeins prumpa hátt og falskt eftir klukkan 18,00). Ég hef því hafið sjálfstæða og algjörlega óháða rannsókn á þessum málum fyrir tengdaföður minn og hef komist að því að í Tælandi má hafa mök við broddgelti (og nánast hvað sem er annað) og það þykir merki um karlmennsku að prumpa af innlifun.

 

 

Heimsótti læknavaktina í gærkvöldi og sagði farir mínar ekki sléttar. Vegna heiftarlegra verkja í baki (sjá færslu hér á undan) hefði mér verið úthlutað verkjarlyfjum, en í einu kvalakastinu hefði ég í misgripum tekið lyfjaglasið og gefið gullfiskinum allt heila klabbið í morgunmat. Það hefði hvarflað að mér að sneiða helvítis gullfiskinn niður í bita og éta 2 bita 4 sinnum á dag  en hann liggi svo værðarlegur á botninum á skálinni sinni að ég geti hreinlega fái mig ekki til þess. Læknirinn sýndi þessu mikinn skilning og ávísaði á mig litlu lyfjaskýi, sagði mér að gefa honum 4 töflur á dag til að byrja með en smá minnka það svo. Það gæti verið lífshættulegt fyrir svona lítinn fisk að hætta svona "cold turkey". Ég átti hins vegar að fara í sund og vera þolinmóður.

 GULLFISKUR

Note to self. Kaupa gullfisk áður en  hringt er í næturlækni næst.

 

 


Leitt fyrir Björn Bjarnason.

Tarantúlan reynir að komast úr í búri sínu í dag.Björn Bjarna missti þarna alveg af tækifærinu á erfðabreytingum á sérsveit ríkislögreglustjóra. Spidermansveitin hefði getað alist upp í Vatnsmýrinni hjá Kára Stefánssyni þar sem stutt er í veiðilendur lögreglunnar. Liðsmenn hennar hefðu skriðið út í skjóli nætur og gómað mígandi fyllibyttur, heróínþyrsta bankaræningja og aðra óvini ríkisins á mettíma og komið þeim fyrir í þar til gerðum vef sem festur hefði verið í portið á lögreglustöðinni á hverfisgötu.

Í frítímum hefði Björn svo getað þjálfað litlu túlluna og skráð sig á heimsmeistaramótið í berjamó. 


mbl.is Tarantúlan reyndi að flýja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófarir og vellíðan

Mánudagsmorgunn, heil vinnuvika framundan full af tækifærum. Vinnuvika með skemmtilegasta starfsfólki í heimi að vinna við skemmtilegustu verkefni í heimi fyrir ánægðustu kúnna í heimi. Það var ekki að ástæðulausu að ég vaknaði með bros á vör. Teygði mig makindalega á rúmstokknum og lét hugann reika um verkefnalista vikunnar, beygi mig eftir vinnufötunum og BAMM. Verkur í baki sem leiðir niður í tær og upp í heiladingul. Þeyti svefnherbergishurðinni upp og skakklappast fram í stofu öskrandi og æpandi eins og Quasimoto á þungarokkstónleikum. Ranka við mér við eldhúsvaskinn ekki viss um hvort ég kom þangað til að skæla eða æla (langaði helst að gera bæði) þannig að ég ákveð að fá mér vatnsglas. Fálma eftir skáphurðinni en kemst að því að verkurinn hefur stillt sjónina yfir á abstrakt þannig að ég sá allt í mislitum flögum. Fálma eftir glasinu, fylli það af ísköldu vatni, skelli einu í mig og einu yfir mig. Sjónin rennur smá saman aftur yfir á autofocus. Fyrir framan mig situr Hekla, morgunkornsskeiðin hefur klossabremsað í höndum hennar og ég á greinilega alla hennar athygli. Pabbi, þú veist að það er Bolludagur í dag Öskudagur er ekki fyrr en á fimmtudaginn. Ég muldra eitthvað óskiljanlegt, tek eftir að ég held ennþá krampakenndu taki um vinnubuxurnar mínar og finn vinnudaginn hellast yfir mig eins og hressandi skammt af sjóðandi olíu. Þar sem ég var ekki fær um að klæða mig sjálfur kom Hekla mér til bjargar og klæddi föður sinn í skyndi, en lét þau orð fylgja að ég liti nú ekki út fyrir að vera vinnufær. Ég lét þessi orð hennar lítið á mig fá og arkaði af stað í vinnuna. Ég var kominn alla leið að eldhúsborðinu (4 skref) og stóð þar öskrandi eins og nátttröll þegar konan mín kemur fram. Eftir að hafa reynt að koma mér fyrir á einhverjum stað sem væri mér þóknanlegur (að komast upp í rúm 40 mín, að standa upp úr rúmi 30 mín, að labba inn í stofu og setjast í sófa 20 mín) tók hún til við að hringja í lækna og hjúkrunarfræðinga. Þar sem læknar virðast ekki vilja heimsækja fólk nema á nóttunni var henni bent á að panta fyrir mig sjúkrabíl og láta skutla mér upp á bráðavakt, sem hún og gerði. Dyrabjallan hringdi og inn gengu 2 menn með sjúkrabörur og stóra rauða tösku. Ég hafði dauðkviðið fyrir að þurfa að standa upp úr sófanum og láta hlunka mér á börum yfir hálfan bæinn en sá ótti var algjörlega ástæðulaus því mér voru gefin verkjalyf af sterkustu sort, og farið afar mjúklega með mig.Við komumst niður á Borgarspítala á mettíma og mér var komið fyrir í hvítmáluðum kassa sem enginn arkitekt myndi nokkurn tíman setja nafnið sitt við .Og þar sem ég ligg í morfínmókinu á dúnmjúku skýi hugsandi um Megas og Kant, kemur inn hvítklædd vera og  segir með djúpri bassarödd. "Sæll Bjarni Magnússon hvernig líður þér". Ég horfi óttasleginn á mannveruna fyrir framan mig og reyni að átta

image

mig á aðstæðum. Hvorki vængir né harpa, ekki svört möndlulaga augu né stór egglaga

haus, sennilegast er þetta manneskja. Að öllu líkindum læknir."Mér líður bara alveg ljómandi vel" segi ég, "en þér"? Hann kíkir á skrifblokk sem hann heldur á og spyr mig svo hvort ég hafi ekki komið vegna mikilla verkja í baki. Ég svara játandi og spyr hann til hvers í ósköpunum læknar noti tónhvísl. Hann horfði á mig ráðvilltur á svip og spurði mig hvort það gæti hugsast að ég hefði fengið einhver verkjalyf. Eftir að hafa fengið það staðfest hóf hann skoðun á mér. Hann lyfti á mér fótunum, lét mig standa á öðrum fæti, lét mig spyrna út í vegg ofl en allar þessar æfingar ,sem hefðu gert mig vitstola af kvölum fyrr um morguninn voru nú einungis kitlandi og skemmtilegar. Hann hristi hausinn og sendi mig í myndatöku.  Þegar ég kom úr myndatökunni voru  kvalirnar farnar að ná yfirhöndinni aftur.  Kannski þess vegna fannst mér lítil ástæða til að brosa með lækninum þegar hann sagði mér að þetta væri ekki brjósklos heldur sennilegast þursabit eða hexeskud eins og það héti á útlensku. Það þýðir Bjarni Magnússon, hélt hann áfram, að við höfum ekki nokkra hugmynd um hvað er að þér, en sennilegast tekur þetta 7-14 daga. Hann rétti mér 2 lyfseðla og sagði mér að þetta gæti kannski hjálpað mér eitthvað með verkina en sennilegast væri sjúkraþjálfun og sund málið.Ég hlunkaði mér heim, Bryð töflur og læt renna í hitapoka. Það er 30 ára bið eftir því að ég fái að hitta heimilislækni svo hann geti vísað mér á sjúkraþjálfara og sundlaugin er jafn fjarri mér og Júpíter.


Er þetta málið?

Mín ektakvinna fullyrðir að vistin á blog.is afar hressandi, þannig að ég ætla að athuga hvernig mér líka húsakinnin. Hingað til hef ég átt öll mín bloggviðskipti við amerískan bloggrisa, en vegna einstakra erfiðleika við innskráningu og mjög stopullar birtingar hef ég ákveðið að segja skilið við þann ágæta mann.

Raunir óundirbúins föðurs


Unglingurinn Bryndís hafði stungið af úr matarboði tengdaforeldra minna, en lofaði hátíðlega að vera kominn heim fyrir kl. 10. Þetta loforð virtist sagt í fullri einlægni en einhvernvegin var ég við því búin að þurfa að hringja oft og senda ótal smáskilaboð, þurfa að hafa samband við lögreglu, hjálparsveitir og almannavarnir til að ná stúlkunni heim úr klóm skemmtanafíknar ungviðisins fyrir tilskildan tíma. Klukkan 9:30 hringir dyrabjallan og fyrrnefnd unglingsstúlka biður um að fá að komast inn. Gleði mín var takmarkalaus. Loksins var uppeldið farið að skila sér, öll reiðiöskrin, allar ræðurnar við eldhúsborðið, grátbeiðnirnar,hótanirnar,tiltölin,fræðslan og áróðurinn allt hafði þetta leitt að þessum tímapunkti. Að eiga hlíðin og góðan ungling(sem hún vissulega er). Ég stóð við hurðina með bros á vör að taka á móti henni eins og fyrirmyndarfaðir í amerísku eðaldrama bjóst hálfpartinn við faðmlagi og koss góða nótt , því hún vildi vakna snemma til að læra. Ég var að fara að loka hurðinni þegar annar unglingur gengur inn í forstofuna , karkyns unglingur. Karlingur.

Hann klæðir sig úr úlpu og skóm meðan ég stend eins og gifsafsteypa af sjálfum mér algjörlega ósjálfbjarga með hreyfingar eða tal. Næ á mér taki, stilli röddina á Rammstein og spyr. “Hver í andskotanum ert þú eiginlega”? Karlingurinn lítur á mig og brosir ósköp sætt (ekki ósvipað Múmínsnáðanum) rífur í höndina á mér og hristir. Góða kvöldið ég heiti Ísak. Ég finn gifsið renna yfir mig, sé stúlklinginn taka í hendina á Ísak og leiðan í burt frá afsteypunni af föður hennar, hurð lokast ,dempað fliss flæðir um íbúðina.

Jamm þetta ósköp krúttlega en vandræðalega tímabil er semsagt hafið hjá Blikabúum.

Mér að meinalausu hefði það alveg bíða í nokkra tugi ára, en sennilegast fæ ég ekki miklu um það ráðið. En næst verð ég betur undirbúin og þarf ekki að bregða mér í líki Ópsins eftir Munch þegar ég heyri hurðina lokast. Er að koma mér upp massívum spurnigarlista fyrir drengin , krossapróf kemur einnig vel til greina.

Allar tillögur af kvikindislegum spurningum eru vel þegnar.


Bumba

Bjarni þú ert að fá BUMBU!!!! Orðin smullu á mér eins og svipuhögg þar sem ég sat afslappaður á rúmstokknum. Gat þetta verið? Að stæltir magavöðvarnir væru orðnir svo stórir að þeir væru farnir að mynda vangasvip. Eða gat það mögulega verið að hún væri að meina að ég væri að fá ístru? Ég horfði á hana skelfdur á svip og beið þess að hún segðist vera að grínast, en þess í stað horfði hún á mig rannsakandi og sagði. “Já þú þarft bara að fara að passa þig.” Síðan gekk hún í burt en ég sat eftir og horfði á bumbuna á mér. Þegar ég var viss um að hún væri komin inn í stofu læddist ég inn á klósett til að athuga málin með spegilmynd minni. Ég speglaði á mér hægri hliðina og ég speglaði á mér vinstri hliðina. Ég speglaði mig að framan og ég speglaði mig að aftan. Ég speglaði mig sitjandi, liggjandi, hallandi mér upp að vegg og með aðra hönd undir hökunni svona eins og hugsuðurinn. Það fór ekki á milli mála, sennilegast er ég bara að fá ístru muldraði ég, og uppskar tíst úr stofunni.



Þegar ég kom heim úr vinnunni daginn eftir sátu kona mín og barn í sófanum vandlega faldar á bak við grænmetisréttabók. Sú styttri gaf sér þó tima til þess að líta rétt aðeins yfir bókina, ekki þó til að heilsa mér heldur til að skoða mig. “Jú mamma það er rétt hjá þér hann er að verða soldið feitur. Ósjálfrátt greip ég um bumbuna, og sú stutta hvarf á bak við bókina sem tók að hristast afskaplega auk þess sem það ískraði undarlega mikið í þeim mæðgum fyrir aftan bókina. Svona eins og þær væru tvær haugryðgaðar kellingar að skoða nærfatatískuna. Ég snéri við á staðnum og gróf mér gröf undir sænginni vopnaður kakóbolla og kökusneið. Þær mæðgur létu ekki þar við setið heldur stungu upp á því að við myndum nú breyta mataræðinu á heimilinu. Nú myndum við bara borða hollan og “góðan” mat það væri nefnilega svo gott fyrir okkur “öll”. Þar að auki vildi heimasætan eyða kvöldunum í hressileg djassballettspor, sundferðir, skokk og erobik með sérstakri áherslu á magaæfingar. Ég vona innilega að þeim gangi vel með þennan breytta lífstíl sinn. Ég hef nefnilega ákveðið að það sé flott að hafa bumbu.

erfðargrípir eru háskalegir gripir

Konan mín ljómaði í framan þegar hún sagði mér tíðindin. Olla frænka hennar var að flytja og ákvað að láta stofuskenk foreldra sinna, ömmu og afa téðar konu minnar, ganga áfram niður erfðastigann. "Þetta er svo mikil mubla Bjarni, svona tekkskenkur með rennihurðum, skúffum og hillum. Mér hefur alltaf fundist hann svoo flottur, síðan er hann líka feikigóð hirsla". Þessi ofsakátína konu minnar yfir þessu mikla húsgagni smitaðist áfram til mín og var ég strax farin að raða silfurhnífapörunum í skúffurnar, mánaðarstellinu í hillurnar og fallegum innrömmuðun fjölskyldumyndun ofan á hann, án þess að hafa rekið minni í að hafa nokkurntíman séð gripinn. Þetta kvöld sofnuðum við skælbrosandi, og leiddumst hönd í hönd inn í draumalandið, það er jú ansi gaman að fá fallega hluti gefins, og ekki er leiðinlegra að það sé hlutur með fallegum minningum og sögu.

Strax eftir vinnu daginn eftir var ég gerður út af örkinni vopnaður kerru, bíl og tveggja metra heljarmenni að sækja skenkinn. Olla frænka konunnar tók mér grunsamlega vel, þar sem hún kom út á plan til að athuga hvort að kerran væri ekki örugglega nógu stór, hún ætti nefnilega borðstofuborð í stíl sem hún vildi endilega að við fengjum líka. Ég var í sjöunda himni, borð líka . Ég arkaði inn, hún skyldi sko ekki ná að skipta um skoðun. Inn í stofu stóð svo nýja borðstofusettið mitt. Ósamstæðara "sett" hef ég ekki séð hvorki fyrr né síðar. Borðið var var hvítt með renndum fótum, sennilegast frá 9. áratug seinustu aldar, að öllum líkindum sænskt frá hinni virtu húsgagnaverslun Ikea. Skenkurinn var vissulega formfagur, svona á sinn hógværa hátt. En eitthvað var hún Olla ósátt við hann á sínum tíma og ákvað því að hressa aðeins upp á hann þannig að hann færi betur við borðið. Hafði hún tekið það ráð að lakka skenkinn hvítan og hurðirnar ljósbláar, svona eins og fer himninum svo vel. Mér fannst ljósblátt ekki fara tekkskenknum mínum vel.En hvað getur maður annað gert í svona aðstæðum en að vera óendanlega þakklátur fyrir þessa mjög svo óvæntu gjöf. Þegar ég var búin að hlunka þessu út á kerru ásamt förunaut mínum hringdi ég í konuna mína. Áætlunin var að tala um heima og geima t.d. hvað hún færi nú allt of sjaldan að versla sér föt og hvað það væru margar góðar rómantískar gamanmyndir í bíó núna og svo í lok samtals rétt impra á því hvort það væri ekki rétt að ég færi bara beint á Sorpu með þetta drasl sem ég átti víst að sækja. Ég hef aldrei óttast um líf mitt en eftir að ég sagði orðið Sorpa hafði ég ástæðu til að óttast. .Plan B. var háskaleg og djörf áætlun og var henni umsvifalaust hrint af stað. Plan b. fól í sér að keyra með draslið óbundið á kerrunni á 90 kílómetra hraða alla leiðina heim og slá ekki af fyrir neitt heldur auka heldur hraðan yfir hraðahindranir og í vinkilbeygjum. En auðvitað komst "settið" heilt heim þar sem konan mín beið alveg að springa úr spenningi. "Mikið er hann flottur" sagði hún með sannfæringarhljóm þar sem við stóðum fyrir framan ljósbláa ferlíkið sem hafði komið sér makindalega fyrir á stofugólfinu. "þú þarft bara að pússa smá" . ég horfði skilningsvana á hana. Gat verið að hún ætlaðist til að ég færi að slípa þetta upp??? Svarið lá í augum uppi svo ég reyndi að að beita rökum, það færu minnst 10 lítrar af málningaruppleysi á þetta og þegar það væri búið að ná litnum af þá þyrftum við að kaupa svona 80 fermetra af sandpappír og hafa 200 lausar klukkustundir til að vinna þetta. Mér lýst vel á þetta hjá þér Bjarni drífðu bara í þessu.


Síðan er liðið eitt og hálft ár. Hálfpartinn var ég að vona að hún gæfist upp og segði að við skyldum bara losa okkur við hann eða að hún myndi fara að gera þetta sjálf. En svo heppinn er ég ekki því að mér hefur verið tjáð það að þessi skenkur skuli vera tilbúin fyrir næstu jól. Þannig að nú fara allar mínar frístundir í að skafa,slípa og olíubera. Af borðinu er það að frétta að ég málaði það grænsanserað með hömmruðu hammerite vinnuvélalakki og er það hið undarlegasta eftir þá framkvæmd. Jæja skyldan kallar, farinn að slípa...

Hún á svo mikið betra skilið

Tölvan okkar hér á bæ er þunglynd þessa dagana. Henni finnst sér vera illa sinnt, að við hana sé of lítið talað, henni sama sem ekkert strokið og að á hana sé litið eins og hún sé eins og hvert annað heimilistæki.


"Ég er ekki heimsk braurist", má lesa úr flöktandi skjánum þar sem hún gónir á mig eins og heimilislaus hvolpur. "Ég hef heila, minni og auga, ég hef þjónað þér í mörg ár án þess að þú hafir svo mikið sem þakkað mér fyrir. Þegar ég var lítil tölva fékk ég ekki einu sinni að trúa á jólasveininn, ég átti enga æsku. Þú hrintir mér algjörlega óvarðri á netið þar sem alls kyns vírusar og ormar földu sig í myrkum rafrásum. En nú er ég orðin gömul og lúin tölva, komin með alsheimer og gláku. Sennilegast þarf að taka úr mér móðurborðið. Ég vona bara að þú hugsir vel um alla disklingana mína eftir að ég kveð."


Það er ótrúlegt hvað það má lesa mikið úr skjá þessarar litlu tölvu. Um daginn grét hún meira að segja. Ég sat og hamraði einhverja speki á greyið þar til að hún þoldi eki meir og fór að háskæla. Það hljómaði hræðilega, ekki ósvipað reykskynjara eða morgunfúlli vekjaraklukku. Ég reif hana strax úr sambandi til að leifa henni að hvíla sig soldið og hringdi í tölvulækninn til að fá sjúkdómsgreiningu. Hann sagði að það þyrfti að uppfæra biosið í henni og að ég gæti svo sem komið með hana til sín. En þetta væri nú orðið soddan drasl að það tæki því nú varla. Ég sármóðgaðist að sjálfsögðu fyrir hönd tölvunnar minnar og benti honum á að eldhúsinnréttingin hans hefði nú kannski þótt sæmileg einhverntíman á sjöunda áratug seinustu aldar en í dag þætti hún varla boðleg í holræsi. Hann skellti á mig og svarar ekki þegar ég hringi, tölvan mín er ennþá lasin. En nú sé ég hana í öðru ljósi þessa elsku því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Nú strýk ég henni undurblítt um vangann í hvert sinn sem ég geng fram hjá henni, hvísla fallegum orðum inn um drifið á henni og blæs jafnvel ofurvarlega inn um usb tengið á henni meðan að ég fitla við on/off takkann á henni. Ég hef ákveðið að finna færasta tölvulækninn handa henni, að hún skuli fá nýtt móðurborð, minni og stóran harðan disk. En þangað til að þetta hefur gerst verður lítið bloggað.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband