23.3.2008 | 16:00
Páskafrí
Það er undarlegt fyrir vinnudýr að fara í frí. Maður fær undarlegustu hugdettur og kemst að löngu gleymdum hlutum. Til dæmis hef ég velt því fyrir mér hvort það færi sjónvarpinu ekki betur að standa á hlið, hvort að ég ætti að mála hringorma á ísskápinn og hvort ég ætti að búa til gestabók, sem væri með myndum af höndunum á öllum sem heimsækja mig. (gestabókin er reyndar nokkuð sniðug hugmynd). Ég hef komist að því að, sófinn er þægilegur, sjónvarpsdagskráin leiðinleg, internetið stórt og að páskaeggjaratleikir eru skemmtilegir. Hekla Bjarnadóttir faldi nefnilega páskaeggið mitt og lét mig síðan skrölta um alla íbúðina vitstola af sykurskorti í leit af vísbendingum um hvar það væri. Ef það hefði ekki verið fyrir feikimikla reynslu af ratleikjum síðan ég var lítill skátadrengur, lægi ég nú froðufellandi af bræði á gólfinu, seinasta vísbendingin var nefnilega svínslega erfið.
" Í þessum var ég lítil, fela þeir sig rauðir"
Þessi vísbending kostaði töluvert klór í haus. En að lokum hafðist þetta, enda mundi ég orð Baden Powells um að skáti væri þrautseigur og passaði því þrýstinginn. Barn og unglingur trítluðu léttstígar eftir vísbendingum Sigrúnar og fundu eggin sín á mettíma, enda afar vel gefnar báðar tvær og sólgnar í súkkulaði.
Af þyngd minni eru síðan voðvænlegar fréttir, því að hún virðist hafa beintengt sig við vísitölu neysluverðs. En ég læt það lítið á mig fá og held ótrauður áfram í sukkinu. Á eftir ætla ég að sökkva tönnunum í fjórða páskalambið sem slátrað er mér til heiðurs þessa páskana, og ég er jafnvel að hugsa um að smygla mér í það fimmta á morgunn. Einnig ætla ég að misnota veru mína hér á opinberum miðli og auglýsa eftir sjötta lambinu, þá hangikjeti. Helst af tveggja vetra sauð.
Annars vil ég óska öllum gleðilegra páska, og þakka kærlega fyrir mig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.